Siðareglur birgja og þjónustuaðila

Tilgangur

Festi og rekstrarfélög þess (Bakkinn vöruhótel, ELKO, Krónan, N1, og Yrkir) hafa sett sér siðareglur fyrir eigin félög, birgja og þjónustuaðila sem eiga sér stoð í sjálfbærnistefnu samstæðunnar.

Tilgangur reglnanna er að skapa áreiðanlegt og traust umhverfi innkaupa hjá samstæðunni og styðja við sjálfbærnimarkmið hennar. Með því að gera skýrar kröfur til okkar sjálfra, til birgja okkar og þjónustuaðila viljum við hafa áhrif á aðfangakeðjuna til að stunda enn ábyrgari og sjálfbærari framleiðslu og viðskipti.

Ábyrgð og gildissvið

Stjórn og framkvæmdastjórn Festi samþykkja siðareglur þessar og gilda þær fyrir öll félög innan Festi og alla birgja og þjónustuaðila samstæðunnar. Reglur þessar eru endurskoðaðar árlega, birtar á heimasíðu Festi og kynntar stjórnendum og starfsfólki við innleiðingu og ef breytingar verða.

Séu strangari kröfur gerðar frá rekstrarfélögum Festi ganga þær framar þessum reglum.

Festi og rekstrarfélög þess áskilja sér rétt til að framkvæma mat á birgjum og þjónustuaðilum með hliðsjón af þessum siðareglum. Komi upp rökstuddur grunur um brot birgis á siðareglum þessum verður brugðist við samkvæmt skráðu verklagi sem miðar að úrbótum. Alvarleg og/eða viðvarandi brot, án þess að bætt sé úr, geta leitt til þess að bundinn verði endi á viðskipti við viðkomandi aðila.

Kröfur til birgja og þjónustuaðila

Festi gerir þá kröfu að birgjar og þjónustuaðilar fylgi ávallt lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Auk þess gerir Festi eftirfarandi kröfur til birgja og þjónustuaðila eftir UFS flokkum*:

1. Umhverfismál
  • Geri sér grein fyrir loftlagsáhrifum af eigin rekstri og beiti markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni.
  • Þekki önnur umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr neikvæðum áhrifum hennar með ábyrgum hætti.
  • Afhendi sorp til endurvinnslustöðva sem flokkað er eftir viðeigandi viðmiðum og reglum hverju sinni.
2. Félagslegir þættir
  • Virði alþjóðlega viðurkennd mannréttindi sbr. Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og reglur um réttindi barna sbr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafni með öllu mannréttindabrotum svo sem hvers kyns nauðungar- eða þrælkunarvinnu.
  • Virði félagafrelsi og kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks á hverjum tíma.
  • Skapi starfsumhverfi sem stuðlar að jafnrétti og umburðarlyndi og líður ekki einelti, ofbeldi, áreitni eða mismunun af neinu tagi.
  • Tryggi öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk sitt.
3. Stjórnarhættir
  • Stundi heilbrigða viðskiptahætti og vinni gegn hvers kyns spillingu.
  • Setji sér siða- og eða starfsreglur sem eru aðgengilegar starfsfólki.
  • Eigi traust samskipti og virði þagnarskyldu um trúnaðarupplýsingar.

*UFS (e. ESG) stendur fyrir umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti; sjá leiðbeiningar frá Nasdaq

Útgáfa 1.0, samþykkt 12. desember 2023

Staðfestingarform
Þakka þér fyrir! Sending tókst
Úps! Eitthvað fór úrskeiðis við að senda eyðublaðið.

Frekari upplýsingar

Hvers vegna er verið að setja siðareglur birgja og þjónustuaðila?
Opna
Loka

Festi og rekstrarfélög þess vilja hafa jákvæð áhrif á aðfangakeðjuna til að stunda ábyrgari og sjálfbærari framleiðslu og viðskipti, stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum og vinna gegn hvers kyns spillingu.

Með því að setja skýrar siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila skilgreinir samstæðan kröfur sínar til aðfangakeðjunnar.

Hvað gerist ef birgir eða þjónustuaðili staðfestir ekki siðareglurnar?
Opna
Loka

Við nýtum staðfestingarformið til að útbúa yfirlit yfir hverjir hafa staðfest siðareglurnar og munum líta til þess þegar kemur að því að þróa okkar viðskiptasambönd.

Hvað gerist þegar búið er að staðfesta siðareglurnar?
Opna
Loka

Setning siðareglna fyrir birgja og þjónustuaðila er fyrsta skrefið í vegferð félagsins um að hafa jákvæð áhrif á aðfangakeðju sína. Þau fyrirtæki sem staðfest hafa siðareglurnar munu svo á ákveðnum tímapunkti vera beðin um að svara spurningalista eða svokölluðu birgjamati.

Hvert er verklag vegna hugsanlegra brota á siðareglum birgja og þjónustuaðila Festi og rekstrarfélaga?
Opna
Loka

Berist Festi upplýsingar vegna ætlaðs brots birgis á Siðareglum birgja og þjónustuaðila skal forstöðumaður innkaupa eða viðeigandi tengiliður hans hjá því rekstrarfélagi sem á í viðskiptum við birginn eða þjónustuaðilann, fylgja eftirfarandi verklagi í samstarfi við forstöðumann lögfræðisviðs:

  1. Kanna þau gögn eða þær upplýsingar sem eru til stuðnings mögulegu broti og taka afstöðu til trúverðugleika þeirra.
  2. Leita formlega eftir afstöðu viðkomandi birgis eða þjónustuaðila til upplýsinganna, séu þær taldar trúverðugar.
  3. Meta alvarleika meints brots og hvort og þá hvaða úrbóta er þörf.
  4. Leita samstarfs við birginn eða þjónustuaðilann um úrbætur ef mögulegt er.
  5. Sé úrbótum ekki mætt eða verði þeim ekki við komið samkvæmt sanngjörnu mati Festi, áskilur Festi eða viðkomandi rekstrarfélag sér rétt til að slíta samstarfi við birginn eða þjónustuaðilann tafarlaust.

Við vinnslu á upplýsingum um meint brot á siðareglum birgja og þjónustuaðila mun Festi gæta að meðalhófi og andmælarétti birgisins eða þjónustuaðilans.