Siðareglur stjórnar Festi
1. Traust, fagmennska og heilindi
1.1. Reglur þessar taka til stjórnar og forstjóra Festi hf.
1.2. Við förum að siðareglum Festi. Við vinnum faglega, af alúð og tileinkum okkur góða viðskiptahætti og vinnubrögð sem eru til þess fallin að skapa traust.
1.3. Við förum eftir lögum og reglum sem lúta að starfsemi félagsins og gætum að því að haga störfum okkar og gjörðum í samræmi við skilgreind markmið, tilgang og stefnumið Festi, stefnu félagsins um samfélagsábyrgð og starfsreglum þess.
1.4. Við komum fram við haghafa og samstarfsmenn af virðingu og stuðlum að góðum samskiptum í okkar störfum.
1.5. Orðspor Festi og dótturfélaga er ein dýrmætasta eign félagsins og grunnstoð að samfélagsstefnu félagsins. Hlutir í Festi hafa verið teknir til viðskipta aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og telst félagið einnig tengt almannahagsmunum í skilningi laga. Það leiðir til ríkrar ábyrgðar stjórnar um vönduð vinnubrögð og að aðhafast ekkert það sem samrýmist ekki stöðu þeirra hjá félaginu út frá lagalegri ábyrgð, stefnu félagsins, ímynd og trausti til þess.
2. Hagsmunaárekstrar
2.1. Við högum störfum okkar og gjörðum þannig að við drögum úr hættu á hagsmunaárekstrum.
2.2. Við nýtum ekki upplýsingar sem við fáum í störfum okkar í eigin þágu eða vandamanna okkar og gætum sérstaklega að reglum um innherjaupplýsingar við framkvæmd starfa okkar.
2.3. Við gætum að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu, í samræmi við stöðu okkar í starfi.
2.4. Við sýnum samstarfsvilja séu störf okkar eða aðrar gjörðir teknar til skoðunar.
3. Eftirfylgni
3.1. Reglur þessar skulu kynntar fyrir öllum nýjum stjórnarmönnum. Staðfestum við sem stjórnarmenn að við höfum kynnt okkur reglurnar með undirritun okkar.
3.2. Stjórn ber ábyrgð á og hefur eftirlit með því að reglum þessum sé framfylgt. Gerist stjórnarmaður brotlegur við reglur eða sýni af sér óásættanlega hegðun fer um úrvinnslu þess í samræmi við reglur Festi um orðsporsáhættu og hagsmunaárekstra.
4. Breytingar
4.1. Breytingar á siðareglum þessum skulu vera skriflegar og taka gildi þegar stjórn Festi hefur samþykkt þær. Allar breytingar á reglum þessum skulu kynntar fyrir þeim sem þær ná til um leið og þær hafa tekið gildi.
Samþykkt af stjórn 22. mars 2022
Þannig breytt á fundi stjórnar 9. júní 2022